Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mínir hagsmunir í Reykjavíkurborg

Ég bý í Reykjavík og hér finnst mér ljómandi gott að búa.  Ég er ekki virkur í íbúalýðræðinu, sæki ekki kynningar um skipulög né fundi hverfissamtaka - hef nóg á minni könnu og hef treyst því að almenn skynsemi ráði för hjá þeim sem hafa með mín mál að gera sem íbúa og skattgreiðanda í þessari borg.  Ég hef ekki sérstaklega sett mig inn í leikskólamálin, umferðarmálin né öryggi borgaranna í miðborginni.  Veit þó að allir vilja að börnin séu í góðum leikskólum með góðu starfsfólki, að leysa þarf úr ákveðnum viðfangsefnum í umferðinni til að greiða fyrir og draga úr slysahættu og að aðgerðir þurfa að vera í gangi til að tryggja öryggi þeirra sem skemmta sér í miðbænum um helgar.

Ég var svo lánsamur fyrir mörgum árum að eignast glænýja Trabant-bifreið sem gerði sig vel, ekki síst í vetrarfærð eins og nú er.  Við Trabant-eigendur vorum sameinaðir undir kjörorðinu "Skynsemin ræður" og ég er ekki frá því að það kjörorð hafi haft veruleg áhrif á mig og mínar skoðanir æ síðan - skynsemin ræður.

Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið virkur borgari hef ég tekið þátt í sveitarstjórnarkosningum og valið þar þann lista sem mér hefur þótt líklegastur hverju sinni til að koma skynsömum málum í framkvæmd s.s. skólamálum, umhverfismálum, umferðarmálum, þjónustumálum, heilbrigðismálum og svo mætti áfram telja.  Ég hef sett mig inn í borgarmálin í kringum kosningar hverju sinni og komist að því að obbinn af liðinu sem hefur boðið sig fram er með skynsamleg mál á stefnuskránni og aðeins blæbrigðamunur á útfærslum hefur skilið flokka og frambjóðendur að.

Heilt yfir hef í því verið pollrólegur hvort "minn" flokkur í það skiptið hafi sigur því ég hef verið sannfærður um að allir frambjóðendur hafi það að markmiði að skapa hér lífsskilyrði sem eru góð fyrir mig og mína fjölskyldu og þá gildir mig í raun einu úr hvaða flokki svo menn koma eða hver leiðir verkefnið hverju sinni.

Atburðir undanfarinn daga hafa hinsvegar vakið mig verulega til umhugsunar og ég hef vaxandi áhyggjur og rökstuddan grun um að nú sé málum þannig komið að skynsemin ráði ekki lengur för heldur einhverjir allt aðrir hagsmunir.

Mér að ofbýður það ástand sem verið hefur uppi í stjórnun borgarinnar síðustu daga og hlýt sem borgari að mótmæla harðlega þeim vinnubrögðum sem fulltrúar allra flokka hafa sýnt, ekki bara síðustu daga heldur síðustu mánuði. 

Það liggja fyrir afar brýn verkefni varðandi leikskóla, umferðarmál og marga aðra málaflokka en í stað þess að þessum málum sé sinnt af krafti eyða kjörnir fulltrúar þreki sínu og tíma í pólitískar refskákir og pissukeppnir um það hver fái þetta og hitt embættið. 

Reykjavíkurborg hefur á sinni launaskrá stóran hóp af fólki sem vinnur heilshugar að því að hrinda í framkvæmd skynsamlegum málum.  Eðlilegt er í lýðræðisþjóðfélagi að af afstöðnum kosningum hverju sinni sé lagst í stefnumótunar- og útfærsluvinnu til að merkja megi blæbrigðamuninn á stefnumálunum sem viðkomandi meirihluti hefur hverju sinni.  Þessi vinna, og ekki síst útfærslan, er svo í höndum starfsmanna borgarinnar sem svo bera ábyrgð á framkvæmdinni gagnvart okkur borgarbúum.  Það hlýtur að vera nöturlegt jobb fyrir þetta fólk að vinna eina útfærslu núna, aðra eftir 3 mánuði og svo þá þriðju...  Þessir stjórnarhættir eru vondir og minna mig um margt á 3ja ára gamla dóttur mína sem velur sér brúnan kjól að kveldi, vill svo bláan að morgni og mætir svo í bleikum joggingalla í leikskólann og er steinhissa á að þetta reyni á þolrif okkar foreldranna.

Ég ætla ekki að rekja nánar það sem gerst hefur undanfarna daga - nóg er komið af slíku og nú er mikilvægt að horfa fram á veginn.  Mín spá er sú að það ástand sem verið hefur í gangi á þessu kjörtímabili muni hafa þau áhrif að í næstu kosningum muni kjósendur halla sér að stærstu flokkunum (Samfylking og Sjálfstæðisflokkur) og þeir minni (Frjálslyndir, Framsókn og Vinstri Grænir) muni því miður þurrkast út.  Ástæðan er sú að fólkið vill framkvæmdir en ekki fundi - meirihluta sem getur þokað málum í gegn en ekki málamiðlunarhóp sem nær litlu fram.  Það veit að allir þessir flokkar eru meira og minna með skynsamleg hagsmunamál okkar borgarbúa á oddinum en það sem fólkið vill sjá er að þessi skynsömu mál séu framkvæmd en ekki séu um þau endalausar pólitískar deilur og tímasóun í pólitískar refskákir.

Fram að þessu hefur það verið landlæg og því miður viðurkennd afstaða stjórnmálaafla að þau ganga óbundin til kosninga.  Ég held að á þessu verði breyting.  Ég spái því að kjósendur vilji fá að vita með hvaða flokki viðkomandi frambjóðandi væri tilbúin til að vinna með ef til þess kæmi.  Aðeins með slíku fyrirkomulagi getur kjósandinn kosið ákveðinn flokk með vissu um að þau málefni sem lögð sé áhersla á verði sett á oddinn.  Þannig þarf enginn að sætta sig við eitthvað miðjumoð sem littlu skilar.  Þannig verða líka skarpari skilin á þeim sjónarmiðum sem verða ofaná eða undir.  Ef að ég geti ekki sætt mig við flugvöllinn í Vatnsmýrinni hefði ég þannig tvo möguleika, kjósa flokk sem vill flytja flugvöllinn og stendur klárlega við það, eða að ég flyt í Kópavog, sem er ekki svo slæmur kostur!

Að lokum bara þetta - öll viljum við umbætur á ýmsum sviðum.  Þess vegna einmitt eigum við að geta kosið fólk sem er sömu skoðunar og við og við treystum til að hrinda einmitt þeim umbótum í framkvæmd.  Ef það næst þá er það gott, ef það næst ekki þá er það bara þannig því meirihlutinn er á annarri skoðun og við það sættir maður sig og reynir bara betur næst - þannig virkar lýðræðið og þannig er okkur best borgið.

Skynsemin ræður!

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband