Dokkuferðin 2008

Ég er svo lánssamur að eiga góða vini.  Eins og gengur skiptast þeir í hópa eftir því hvernig þeir tengjast manni; gamlir skólafélagar, gamlir vinnufélagar, gamlir skátafélagar, gamlar kærustur, fyrrverandi tengdamæður og svo mætti lengi telja ;-)

Um síðustu helgi hittumst við nokkrir gamlir vinnufélagar úr Nýherja sem hafa haldið hópinn núna í rúmlega áratug þrátt fyrir að margir úr hópnum séu ekki lengur starfandi hjá félaginu.  Við köllum okkur "Táfýluklúbbinn" og án þess að skýra þá nafngift nánar hér skal það þó tekið fram að þessi félagsskapur er meiriháttar - við eigum fastan punkt í tilverunni sem er ein útilega á ári í sumarbústað að Meðalfellsvatni sem ber nafnið Dokkan og er paradís á jörð.  Við félagarnir höfum komið saman árlega á þessum góða stað um margra ára skeið, notið góðs matar, frábærs umhverfis en fyrst og síðast félagsskapar hvers annars.

Síðustu helgi tók ég nokkrar myndir sem ég bætti hér í myndasafnið á blogginu og ég vona að þetta komist vel til skila.

kv, gp


Hvunndagshetjan mín

Ég kynntist stúlku fyrir nokkrum árum sem heitir Embla.  Stúlku sem ég tengist á margan hátt.  Gúu mömmu hennar hef ég þekkt í hundrað ár, Agnes Braga frænka hennar hefur verið kær vinur minn um langt skeið og svo mætti lengi telja en leiðir okkar Emblu lágu fyrst fyrir einhverja alvöru saman núna í vikunni þegar hún leiddi til sín nokkra hljóðfæraleikara til að leika undir sínum fyrstu einsöngstónleikum.

Embla hefur stundað söngnám hjá Ernu Blöndal sl. tvö ár og þar sem Embla er gríðarleg keppnismanneskja ákváðu þær stöllur að setja sér markmið og slútta vorönninni með tónleikum og þeir fóru fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í gærkvöldi.

Slíkir tónleikar eru því miður sjaldnast í fréttum en þessir tónleikar eiga svo sannarlega skilið að fá umfjöllun því frammistaða Emblu og verkefnið allt í heild sinni er hvatning til okkar allra um að láta drauma okkar rætast.

Embla hefur ekki látið deigan síga þrátt fyrir líkamlega fötlun sína og andlegt atgervi hennar, kraftur, þrek og þor er aðdáunarvert og okkur öllum til eftirbreytni.

Á þessum tónleikum flutti Embla nokkur vel valin lög af sínum persónulega óskalista.  Flest áttu þau það sammerkt að snúast um ást, von og kærleika og því var Fríkirkjan í Hafnarfirði fallegur vettvangur fyrir þau skilaboð Emblu til okkar allra.

Sem fyrr segir hefur Embla stundað nám hjá Ernu Blöndal sl. tvö ár og var því vel við hæfi að þær stöllu tækju saman lagið á tónleikunum.

Meðleik önnuðust þau:
Örn Arnarson - gítar
Aðalheiður Þorsteinsdóttir - píanó
Þorvaldur Þorvaldsson - trommur
Guðmundur Pálsson - bassi
embla

Mínir hagsmunir í Reykjavíkurborg

Ég bý í Reykjavík og hér finnst mér ljómandi gott að búa.  Ég er ekki virkur í íbúalýðræðinu, sæki ekki kynningar um skipulög né fundi hverfissamtaka - hef nóg á minni könnu og hef treyst því að almenn skynsemi ráði för hjá þeim sem hafa með mín mál að gera sem íbúa og skattgreiðanda í þessari borg.  Ég hef ekki sérstaklega sett mig inn í leikskólamálin, umferðarmálin né öryggi borgaranna í miðborginni.  Veit þó að allir vilja að börnin séu í góðum leikskólum með góðu starfsfólki, að leysa þarf úr ákveðnum viðfangsefnum í umferðinni til að greiða fyrir og draga úr slysahættu og að aðgerðir þurfa að vera í gangi til að tryggja öryggi þeirra sem skemmta sér í miðbænum um helgar.

Ég var svo lánsamur fyrir mörgum árum að eignast glænýja Trabant-bifreið sem gerði sig vel, ekki síst í vetrarfærð eins og nú er.  Við Trabant-eigendur vorum sameinaðir undir kjörorðinu "Skynsemin ræður" og ég er ekki frá því að það kjörorð hafi haft veruleg áhrif á mig og mínar skoðanir æ síðan - skynsemin ræður.

Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið virkur borgari hef ég tekið þátt í sveitarstjórnarkosningum og valið þar þann lista sem mér hefur þótt líklegastur hverju sinni til að koma skynsömum málum í framkvæmd s.s. skólamálum, umhverfismálum, umferðarmálum, þjónustumálum, heilbrigðismálum og svo mætti áfram telja.  Ég hef sett mig inn í borgarmálin í kringum kosningar hverju sinni og komist að því að obbinn af liðinu sem hefur boðið sig fram er með skynsamleg mál á stefnuskránni og aðeins blæbrigðamunur á útfærslum hefur skilið flokka og frambjóðendur að.

Heilt yfir hef í því verið pollrólegur hvort "minn" flokkur í það skiptið hafi sigur því ég hef verið sannfærður um að allir frambjóðendur hafi það að markmiði að skapa hér lífsskilyrði sem eru góð fyrir mig og mína fjölskyldu og þá gildir mig í raun einu úr hvaða flokki svo menn koma eða hver leiðir verkefnið hverju sinni.

Atburðir undanfarinn daga hafa hinsvegar vakið mig verulega til umhugsunar og ég hef vaxandi áhyggjur og rökstuddan grun um að nú sé málum þannig komið að skynsemin ráði ekki lengur för heldur einhverjir allt aðrir hagsmunir.

Mér að ofbýður það ástand sem verið hefur uppi í stjórnun borgarinnar síðustu daga og hlýt sem borgari að mótmæla harðlega þeim vinnubrögðum sem fulltrúar allra flokka hafa sýnt, ekki bara síðustu daga heldur síðustu mánuði. 

Það liggja fyrir afar brýn verkefni varðandi leikskóla, umferðarmál og marga aðra málaflokka en í stað þess að þessum málum sé sinnt af krafti eyða kjörnir fulltrúar þreki sínu og tíma í pólitískar refskákir og pissukeppnir um það hver fái þetta og hitt embættið. 

Reykjavíkurborg hefur á sinni launaskrá stóran hóp af fólki sem vinnur heilshugar að því að hrinda í framkvæmd skynsamlegum málum.  Eðlilegt er í lýðræðisþjóðfélagi að af afstöðnum kosningum hverju sinni sé lagst í stefnumótunar- og útfærsluvinnu til að merkja megi blæbrigðamuninn á stefnumálunum sem viðkomandi meirihluti hefur hverju sinni.  Þessi vinna, og ekki síst útfærslan, er svo í höndum starfsmanna borgarinnar sem svo bera ábyrgð á framkvæmdinni gagnvart okkur borgarbúum.  Það hlýtur að vera nöturlegt jobb fyrir þetta fólk að vinna eina útfærslu núna, aðra eftir 3 mánuði og svo þá þriðju...  Þessir stjórnarhættir eru vondir og minna mig um margt á 3ja ára gamla dóttur mína sem velur sér brúnan kjól að kveldi, vill svo bláan að morgni og mætir svo í bleikum joggingalla í leikskólann og er steinhissa á að þetta reyni á þolrif okkar foreldranna.

Ég ætla ekki að rekja nánar það sem gerst hefur undanfarna daga - nóg er komið af slíku og nú er mikilvægt að horfa fram á veginn.  Mín spá er sú að það ástand sem verið hefur í gangi á þessu kjörtímabili muni hafa þau áhrif að í næstu kosningum muni kjósendur halla sér að stærstu flokkunum (Samfylking og Sjálfstæðisflokkur) og þeir minni (Frjálslyndir, Framsókn og Vinstri Grænir) muni því miður þurrkast út.  Ástæðan er sú að fólkið vill framkvæmdir en ekki fundi - meirihluta sem getur þokað málum í gegn en ekki málamiðlunarhóp sem nær litlu fram.  Það veit að allir þessir flokkar eru meira og minna með skynsamleg hagsmunamál okkar borgarbúa á oddinum en það sem fólkið vill sjá er að þessi skynsömu mál séu framkvæmd en ekki séu um þau endalausar pólitískar deilur og tímasóun í pólitískar refskákir.

Fram að þessu hefur það verið landlæg og því miður viðurkennd afstaða stjórnmálaafla að þau ganga óbundin til kosninga.  Ég held að á þessu verði breyting.  Ég spái því að kjósendur vilji fá að vita með hvaða flokki viðkomandi frambjóðandi væri tilbúin til að vinna með ef til þess kæmi.  Aðeins með slíku fyrirkomulagi getur kjósandinn kosið ákveðinn flokk með vissu um að þau málefni sem lögð sé áhersla á verði sett á oddinn.  Þannig þarf enginn að sætta sig við eitthvað miðjumoð sem littlu skilar.  Þannig verða líka skarpari skilin á þeim sjónarmiðum sem verða ofaná eða undir.  Ef að ég geti ekki sætt mig við flugvöllinn í Vatnsmýrinni hefði ég þannig tvo möguleika, kjósa flokk sem vill flytja flugvöllinn og stendur klárlega við það, eða að ég flyt í Kópavog, sem er ekki svo slæmur kostur!

Að lokum bara þetta - öll viljum við umbætur á ýmsum sviðum.  Þess vegna einmitt eigum við að geta kosið fólk sem er sömu skoðunar og við og við treystum til að hrinda einmitt þeim umbótum í framkvæmd.  Ef það næst þá er það gott, ef það næst ekki þá er það bara þannig því meirihlutinn er á annarri skoðun og við það sættir maður sig og reynir bara betur næst - þannig virkar lýðræðið og þannig er okkur best borgið.

Skynsemin ræður!

 


Úlfljótsvatn

Jæja, loksins fann ég fjölina, amk. held ég að þetta sé góð hugmynd.  Pælingin er þessi: Ég hef um langt skeið haft áhuga á að taka saman allt það sem ég kemst yfir sem tengist Úlfljótsvatni; sögu, náttúru og mannlífi en þó með sérstakri áherslu á skátastarfið á svæðinu.

Ég hef tekið syrpur annað veifið, bæði í gömlum skátablöðum, á bókasöfnum og víðar og viðað að mér efni sem mig dreymir um að taka saman og gera aðgengilegt fyrir þá sem hafa áhuga.

Nú ætla ég að kanna hvort ég geti ekki tekið létta sniðglímu á þetta ljómandi forrit sem keyrir bloggið, stofnað sérstakan málaflokk undir mínu bloggi sem snýr að þessu áhugamáli mínu og sjá svo hvert þetta leiðir.

Sem stendur á ég nú bara tvo bloggvini, þá nafna minn Jónsson og Gunnar Kristinn, kærir mjög báðir og hafa greinilega ýmislegt til margvíslegra mála að leggja ef marka má hvað þeirra vinamatseðill er langur og kannski get ég nýtt mér þeirra tengsl og annarra í bloggheimum við að leggja mér lið í safna saman fróðleik og skemmtilegu efni sem tengist Úlfljótsvatni.  Hver veit.

Ég ætla sem sagt að reyna þetta - sjáum svo hvað setur.

p.s.  Ef þú lumar á einhverju áhugaverðu í sambandi við Úlfljótsvatni þá endilega sendu mér póst: gudmundur@digital.is


Að láta til leiðast

Ég hitti nafna minn Jónsson í dag og við ræddum þessi bloggmál - ég fékk hvatningu frá honum að prófa mig á þessu sviði en ég hef alltaf verið hálfneikvæður á þetta og ekki fundist við hæfi að fólk væri að bera atburði síns persónulega lífs á torg.

Hinsvegar er þetta auðvitað ekki galin vettvangur til að koma skoðunum sínum um menn og málefni á framfæri og á þeim nótum hef ég ákveðið að kynna mér betur þessa tækni og hver veit nema ég verði virkur á þessum vettvangi í vetur.


Nú étur maður hattinn sinn!

Hmmm - jæja, þá er ég allavega komin með bloggsíðu, hvað sem líður fyrri fyrirheitum.  Á eftir að stilla þetta og staðfæra.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband