Færsluflokkur: Bloggar

Dokkuferðin 2008

Ég er svo lánssamur að eiga góða vini.  Eins og gengur skiptast þeir í hópa eftir því hvernig þeir tengjast manni; gamlir skólafélagar, gamlir vinnufélagar, gamlir skátafélagar, gamlar kærustur, fyrrverandi tengdamæður og svo mætti lengi telja ;-)

Um síðustu helgi hittumst við nokkrir gamlir vinnufélagar úr Nýherja sem hafa haldið hópinn núna í rúmlega áratug þrátt fyrir að margir úr hópnum séu ekki lengur starfandi hjá félaginu.  Við köllum okkur "Táfýluklúbbinn" og án þess að skýra þá nafngift nánar hér skal það þó tekið fram að þessi félagsskapur er meiriháttar - við eigum fastan punkt í tilverunni sem er ein útilega á ári í sumarbústað að Meðalfellsvatni sem ber nafnið Dokkan og er paradís á jörð.  Við félagarnir höfum komið saman árlega á þessum góða stað um margra ára skeið, notið góðs matar, frábærs umhverfis en fyrst og síðast félagsskapar hvers annars.

Síðustu helgi tók ég nokkrar myndir sem ég bætti hér í myndasafnið á blogginu og ég vona að þetta komist vel til skila.

kv, gp


Hvunndagshetjan mín

Ég kynntist stúlku fyrir nokkrum árum sem heitir Embla.  Stúlku sem ég tengist á margan hátt.  Gúu mömmu hennar hef ég þekkt í hundrað ár, Agnes Braga frænka hennar hefur verið kær vinur minn um langt skeið og svo mætti lengi telja en leiðir okkar Emblu lágu fyrst fyrir einhverja alvöru saman núna í vikunni þegar hún leiddi til sín nokkra hljóðfæraleikara til að leika undir sínum fyrstu einsöngstónleikum.

Embla hefur stundað söngnám hjá Ernu Blöndal sl. tvö ár og þar sem Embla er gríðarleg keppnismanneskja ákváðu þær stöllur að setja sér markmið og slútta vorönninni með tónleikum og þeir fóru fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í gærkvöldi.

Slíkir tónleikar eru því miður sjaldnast í fréttum en þessir tónleikar eiga svo sannarlega skilið að fá umfjöllun því frammistaða Emblu og verkefnið allt í heild sinni er hvatning til okkar allra um að láta drauma okkar rætast.

Embla hefur ekki látið deigan síga þrátt fyrir líkamlega fötlun sína og andlegt atgervi hennar, kraftur, þrek og þor er aðdáunarvert og okkur öllum til eftirbreytni.

Á þessum tónleikum flutti Embla nokkur vel valin lög af sínum persónulega óskalista.  Flest áttu þau það sammerkt að snúast um ást, von og kærleika og því var Fríkirkjan í Hafnarfirði fallegur vettvangur fyrir þau skilaboð Emblu til okkar allra.

Sem fyrr segir hefur Embla stundað nám hjá Ernu Blöndal sl. tvö ár og var því vel við hæfi að þær stöllu tækju saman lagið á tónleikunum.

Meðleik önnuðust þau:
Örn Arnarson - gítar
Aðalheiður Þorsteinsdóttir - píanó
Þorvaldur Þorvaldsson - trommur
Guðmundur Pálsson - bassi
embla

Að láta til leiðast

Ég hitti nafna minn Jónsson í dag og við ræddum þessi bloggmál - ég fékk hvatningu frá honum að prófa mig á þessu sviði en ég hef alltaf verið hálfneikvæður á þetta og ekki fundist við hæfi að fólk væri að bera atburði síns persónulega lífs á torg.

Hinsvegar er þetta auðvitað ekki galin vettvangur til að koma skoðunum sínum um menn og málefni á framfæri og á þeim nótum hef ég ákveðið að kynna mér betur þessa tækni og hver veit nema ég verði virkur á þessum vettvangi í vetur.


Nú étur maður hattinn sinn!

Hmmm - jæja, þá er ég allavega komin með bloggsíðu, hvað sem líður fyrri fyrirheitum.  Á eftir að stilla þetta og staðfæra.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband