7.6.2008 | 02:40
Hvunndagshetjan mín
Ég kynntist stúlku fyrir nokkrum árum sem heitir Embla. Stúlku sem ég tengist á margan hátt. Gúu mömmu hennar hef ég þekkt í hundrað ár, Agnes Braga frænka hennar hefur verið kær vinur minn um langt skeið og svo mætti lengi telja en leiðir okkar Emblu lágu fyrst fyrir einhverja alvöru saman núna í vikunni þegar hún leiddi til sín nokkra hljóðfæraleikara til að leika undir sínum fyrstu einsöngstónleikum.
Embla hefur stundað söngnám hjá Ernu Blöndal sl. tvö ár og þar sem Embla er gríðarleg keppnismanneskja ákváðu þær stöllur að setja sér markmið og slútta vorönninni með tónleikum og þeir fóru fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í gærkvöldi.
Slíkir tónleikar eru því miður sjaldnast í fréttum en þessir tónleikar eiga svo sannarlega skilið að fá umfjöllun því frammistaða Emblu og verkefnið allt í heild sinni er hvatning til okkar allra um að láta drauma okkar rætast.
Embla hefur ekki látið deigan síga þrátt fyrir líkamlega fötlun sína og andlegt atgervi hennar, kraftur, þrek og þor er aðdáunarvert og okkur öllum til eftirbreytni.
Á þessum tónleikum flutti Embla nokkur vel valin lög af sínum persónulega óskalista. Flest áttu þau það sammerkt að snúast um ást, von og kærleika og því var Fríkirkjan í Hafnarfirði fallegur vettvangur fyrir þau skilaboð Emblu til okkar allra.
Sem fyrr segir hefur Embla stundað nám hjá Ernu Blöndal sl. tvö ár og var því vel við hæfi að þær stöllu tækju saman lagið á tónleikunum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.